Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, sópran

Sópransöngkonan Álfheiður Erla Guðmundsdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún stundaði söngnám í Suzukitónlistarskóla Reykjavíkur frá unga aldri og söng í stúlkna- og kammerkór Bústaðakirkju. Síðar söng hún með Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og Hamrahlíðarkórnum.

Hún lauk framhaldsprófi frá Söngskóla Sigurðar Demetz vorið 2013. Hennar helstu kennarar við skólann voru Hallveig Rúnarsdóttir og Sigrún Hjálmtýsdóttir. Vorið 2014 hóf hún bakkalárnám við Hanns Eisler tónlistarháskólann í Berlín hjá Prof. Anna Korondi, Liana Vlad og Hendrik Heilmann. Hún stundar nú mastersnám við sama skóla eftir að hafa lokið bakkalárprófi þaðan vorið 2018, með hæstu einkunn. Á meðal annarra kennara hennar við skólann eru Wolfram Rieger og Peter Berne.

Álfheiður Erla hlaut nafnbótina „A Britten Pears Young Artist“ árið 2018 þar sem tók þátt í meistaranámskeiði hjá heimsþekktu tónlistarfólki, meðal annars söngkonunni Anne Sofie von Otter. Álfheiður var einnig valin til þess að taka þátt í meistaranámskeiði fyrir unga söngvara undir handleiðslu söngkonunnar Renée Fleming í Carnegie Hall, í janúar 2019. Vorið 2019 mun Álfheiður fara með aðalhlutverkið í óperunni Mjallhvíti eftir Wolfgang Mitterer/Engelbert Humperdinck í Staatsoper Berlin.

Auk þess hefur Álfheiður farið með hlutverk Poppeu í „L’incoronazione die Poppea“ í Freiraum Berlin, Súsönnu í „Le nozze di Figaro“ í Uferstudios Berlin, Marzellinu í „Fidelio“ í Liszt Akademíunni í Búdapest, Poppeu í „Agrippina“ í Radialsystem Berlin, Flaminiu í „Il mondo della luna“ við HfM Berlin, svo fátt eitt sé nefnt. Hún hefur tekið þátt í ýmsum meistaranámskeiðum meðal annars hjá söngkonunum Emma Kirkby, Laura Sarti og Janet Williams.

Álfheiður hefur verið styrkþegi Deutschlandstipendium og Live Music Now „Yehudi Menuhin“ sjóðsins frá árinu 2016 og hlaut veglegan styrk frá Ingjaldssjóði árið 2018.

Álfheiður kemur reglulega fram á tónleikum á Íslandi og í Þýskalandi. Hún flutti norræna vordagskrá ásamt Evu Þyri Hilmarsdóttur í Salnum í Kópavogi og í Hofi á Akureyri í mars 2018, en þeirri dagskrá var útvarpað á RÚV, Rás 1. Þær hafa einnig tekið þátt í dagskrá Menningarnætur síðastliðin fjögur sumur, með tónleikum í Dómkirkjunni í Reykjavík.

Á undanförnum árum hefur Álfheiður komið reglulega fram sem einsöngvari í ýmsum kirkjulegum verkum, til dæmis í Messíasi (G. F. Händel), Jóhannesarpassíunni (J. S. Bach) og Donnerode (G. P. Thelemann).