Álfheiður Erla, sópran

Sópransöngkonan Álfheiður Erla Guðmundsdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún stundar mastersnám í Hanns Eisler tónlistarháskólanum í Berlín, eftir að hafa lokið bakkalárnámi þaðan með hæstu einkunn vorið 2018. Hún hlaut nafnbótina „A Britten Pears Young Artist“ og hefur tekið þátt í meistaranámskeiðum m.a. hjá Anne Sofie von Otter, Piotr Piotr Beczala, og Emma Kirkby. Álfheiður þreytti frumraun sína í Staatsoper Berlin í hlutverki Mjallhvítar (Wolfgang Mitterer) vorið 2019. Uppfærslan verður endurtekin í desember 2019. Í september 2019 fór hún með hlutverk Papapgenu í Töfraflautunni undir stjórn hljómsveitarstjórans Alondra de la Parra í Staatsoper Berlin. Álfheiður Erla verður meðlimur í Thüringer óperustúdíóinu starfsárið 2019/2020.

Álfheiður hefur m. a. farið með hlutverk Poppeu í „L’incoronazione die Poppea“ í Freiraum Berlin, Súsönnu í „Le nozze di Figaro“ í Uferstudios Berlin, Marzellinu í „Fidelio“ í Liszt Akademíunni í Búdapest, Poppeu í „Agrippina“ í Radialsystem Berlin, Flaminiu í „Il mondo della luna“ við HfM Berlin, svo fátt eitt sé nefnt.

Álfheiður kemur reglulega fram á tónleikum á Íslandi og í Þýskalandi og hefur lagt mikla áherslu á flutning þýskra og norrænna ljóðasöngva frá rómantíska tímabilinu. Hún tók þátt í SongStudio, meistaranámskeiði hjá söngkonunni Renée Fleming í Carnegie Hall í januar 2019 og mun koma fram á einsöngstónleikum í Carnegie Hall Citywide tónleikasyrpunni sumarið 2020. Á undanförnum árum hefur Álfheiður komið reglulega fram sem einsöngvari í ýmsum verkum, til dæmis í Messíasi (G. F. Händel), Jóhannesarpassíunni (J. S. Bach), Grabmusik (W. A. Mozart) og Donnerode (G. P. Thelemann). Álfheiður Erla er styrkþegi Deutschlandstipendium, Freunde junger Musiker Berlin, Live Music Now „Yehudi Menuhin“ og Ingjaldssjóðs.